Landeigendur

P1030722.JPG

Athugasemdir / mótmæli við frummatsskýrslu vegna 10.000 tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði, dags. 2. nóvember 2020.

Friðbjörn E. Garðarsson lögmaður


Til AX lögmannsþjónustu hefur leitað [...], kt. [...] og falið að koma á framfæri athugasemdum og mótmælum við frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða hf. (hér eftir FA) vegna 10.000 tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði, dags. 2. nóvember 2020.

Umbj. okkar er eigandi jarðarinnar [...] og hefur þannig sérstakra hagsmuna að gæta vegna þeirrar framleiðslu sem FA leitast við að koma til framkvæmdar. Umbj. okkar mótmælir fyrirhuguðum framkvæmdum og niðurstöðum frummatsskýrslu með vísan til þeirra röksemda sem hér fara á eftir. 

Jörð umbj. okkar liggur að sjó í Seyðisfirði og skv. frummatsskýrslu er fyrirhugað að stunda kvíaeldi fyrir landi jarðarinnar í svonefndri [...]. Eignarland er skilgreint í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998 þannig að það sé m.a. landsvæði innan netlaga í sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma. Er þessi skilgreining í samræmi við þau sjónarmið sem giltu í eignarrétti áður en lögin voru sett. Netlögin í sjó og þannig mörk jarðarinnar, telja 115 metra frá stórstraumsfjörumáli út í sjó, sbr. 3. mgr. 2. gr. laganna, sem er einnig í fullu samræmi við þau sjónarmið sem giltu í þessum efnum fyrir gildistöku laganna. 

Innan þessara skilgreindu marka nýtur umbj. okkar allra hefðbundinna eignarráða sem einkaeignarrétti fylgja og er sjávarbotninn innan netlaganna þar ekki undanskilinn, sbr. 1. mgr. 1. gr. laganna. Réttindi ná þannig m.a. til nýtingar á hafsbotni, veiða o.s.frv. Í einkaeignarrétti landeiganda felst einnig rétturinn til þess að meina öðrum að nota það land og gæði sem rétturinn tekur til.  

Af gögnum sem FA hefur lagt fram í frummatsskýrslu er ljóst, að flestar þeirra 24 eldiskvía sem um ræðir eru, skv. kortum sem FA leggur fram, staðsettar mjög nærri landi og raunar alveg upp við netlög, sjá t.d. bls. 5 og 34 í frummatsskýrslu. Varðandi þetta er þó lögð áhersla á að í frummatsskýrslu virðist þess á engan hátt getið hvaða kort er stuðst við varðandi afmörkun netlaga sem tilgreind eru ásamt fleiri upplýsingum. Almennt eru kortagrunnar miðaðir við hæstu sjávarstöðu, en ekki stórstraumsfjörumál og er því ástæða til að gjalda sérstakan varhug við framsetningunni í frummatsskýrslunni. Þá er augljóst að á framlögðum kortum er ekki tekið tillit til hólma eða skerja sem á stórstraumsfjörumáli eru, en netlög telja í allar áttir frá ystu mörkum þeirra. Framsetning í frummatsskýrslu hvað þetta varðar er því röng í þeim skilningi að netlög ná miklu lengra í sjó fram en þar er sýnt. Af þessu leiðir að sjókvíarnar eru a.m.k. að verulegu leyti innan netlaga umbj. okkar. 

Hver eldiskví er 160 metrar að ummáli og 50 metrar að þvermáli og fest inn í ferhyrningslaga rammafestingu sem er 100 x 100 metrar. Þær rammafestingar eru síðan festar saman og miðað við að a.m.k. 60 metrar séu milli eldiskvía, sbr. bls. 21 í frummatsskýrslu. Frá hverri rammafestingu liggja síðan útfarar að akkeri sem á að jafnaði að vera í fjarlægð sem nemur þrefaldri dýpt sjávar frá ramma. 

Í frummatsskýrslu er ekki að finna upplýsingar um dýpi allra þeirra eldissvæða sem FA sækist eftir og er það, ásamt öðru, annmarki á skýrslunni. Í skýrslunni liggja þó fyrir tölur um dýpt fyrir Háubakka og Sörlastaðavík og er hún sögð á bilinu 42-74 metrar, en á öðrum stað í frummatsskýrslu er dýpt á eldissvæðunum sögð 20-80 metrar sem er raunar, að því er neðri mörkin varðar, 10 metrum undir skilgreindu lágmarki, sbr. bls. 33 í frummatsskýrslu. Miðað við þessar dýptartölur er þó ljóst að akkeri og útfarar þurfa að vera í a.m.k. allt að 240 metra fjarlægð, sbr. viðmiðið um þrefalda dýpt (3 x 80 m). Af þessu leiðir að útfarar og akkeri verða í öllu falli langt innan netlaga, hvernig svo sem á málið er litið, enda rammarnir staðsettir nánast upp við netlög (í raun réttri langt fyrir innan þau) og öll sú vegalengd sem um ræðir frá römmum og í átt að landi, verður innan netlaga. FA hefur ekki aflað neinna heimilda til að nýta land umbj. okkar í þessu skyni, en í krafti einkaeignarréttar er honum heimilt að meina FA afnotin, sbr. fyrri umfjöllun.  Bent er á að FA getur ekki heldur aflað heimildar með eignarnámi, enda fer því fjarri að almenningsþörf krefji að félagið fái raskað lífríki Seyðisfjarðar og eignarréttindum umbj. okkar, sbr. skilyrði 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Enn fremur liggja engin lagafyrirmæli slíku til stuðnings. Forsendur frummatsskýrslu standast því í öllu falli ekki.  

Hvað varðar útfara og akkeri frá römmum í átt frá landi þá má ætla að dýpi sé enn meira þar og fjarlægðin verði því ekki minni en að framan greinir. Hins vegar er afar lítið svigrúm til þess að fara með akkeri og útfara langt frá sjókvíunum, að ekki sé minnst á ef sjókvíarnar færast fjær landi, eins og nauðsynlegt yrði skv. framangreindu. Ástæðan er ekki síst sú að helgunarsvæði Farice fjarskiptastrengsins er 463 metrar í hvora átt, sbr. 5. mgr. 71. gr. laga nr. 81/2003. Með vísan til þessa verður að teljast afar langsótt, ef ekki ómögulegt, að ganga frá festingum þannig að hvorki verði gengið á eignarréttindi umbj. okkar með ólögmætum hætti, né brotið í bága við reglur um helgunarsvæði strengsins. 

Úrgangur sem fellur til við framleiðslu í sjókvíaeldunum sem um ræðir er talinn í þúsundum tonna. Áætlun í frummatsskýrslu, sem ástæða er til að gjalda varhug við, miðast við tæp 3.500 tonn á fimm ára tímabili. FA telur 95% þessa úrgangs falla til botns innan við 25 metra frá sjókvíunum. Sú spá byggir að líkindum m.a. á straummælingum. Athygli vekur að byggt er á mælingum strauma á 5 og 15 metra dýpi. Hins vegar liggur fyrir að eldiskvíarnar eru 20 metra djúpar og því skiptir líklega mestu hvernig straumar eru á 25-60 metra dýpi. Burtséð frá þessu telur FA, miðað við gefnar forsendur, að 95% úrgangs falli innan við 25 metra frá sjókvíunum, sbr. bls. 23 í frummatsskýrslu. Miðað við það er væntanlega búist við því að um 175 tonn falli fjær kvíunum. Í frummatsskýrslu er því lýst að úrgangur falli að mestu leyti innan við 50 metra frá sjókvíunum í föstu formi. Þar er og hnykkt er á því að allar kannanir og rannsóknir um áhrif fastra efna séu samhljóma og á þá leið að lítilla áhrifa gæti í 100 metra fjarlægð og alls engra í 350 metra fjarlægð. Af þessu leiðir að öruggt er að áhrifa mun gæta innan netlaga umbj. okkar sem eru vel innan 100 metra fjarlægðar frá kvíunum, hvernig svo sem á staðstetningu netlaga er litið. Er nálægð kvíanna slík að frá þeim og að landi sýnast tæpast vera 350 metrar. Hvernig svo sem á málið er litið mun því áhrifa gæta innan alls þess svæðis sem fellur innan netlaga umbj. okkar.

Úrgangur frá kvíaeldinu er skv. þessu í andstöðu við eignarréttindi umbj. okkar, enda öðrum en eigendum óheimilt að hlutast sérstaklega til um að úrgangi sé dreift yfir land viðkomandi. Á það sérstaklega við þegar svo rammt kveður að dýralíf á því svæði sem um ræðir býður mikinn skaða af eða víkur hreinlega alveg. Með vísan til þessa er enn augljósara að áform FA í Seyðisfirði eru með öllu ósamþýðanleg stjórnarskrárvörðum eignarréttindum umbj. okkar. 

Umbj. okkar má reikna með því að geta nýtt eignarland sitt 115 metra út frá stórstraumsfjörumáli. Augljóst er að áform FA myndu hindra það skv. því sem að framan greinir, enda myndi eldið girða fyrir t.d. veiði og ræktun kræklinga eins og t.d. Brimberg ehf. hefur heimildir til að stunda í firðinum. Einnig er á það bent að í firðinum er á og í grennd við sum kvíaeldissvæðin fyrir að fara uppeldisstöðvum ýsu, einkum í Selstaðavík. Í frummatsskýrslu virðist þetta ekki hafa verið rannsakað, en athygli vekur að botndýrarannsóknir hafa auk þess ekki náð til Skálanesbótar þótt fram komi í frummatsskýrslu að lífríki sé meira utar í firðinum en innar. Virðist raunar sem í frummatsskýrslu sé tekið til umfjöllunar það sem helst er til þess fallið að styrkja málstað FA. Aftur á móti er annað hvort ekki fjallað um eða afar lítið gert úr þeim atriðum sem við blasir að eru sem myllusteinn um háls framkvæmdaaðila vegna þess að ósamrýmanlegt er sjónarmiðum um vernd náttúru, lög að öðru leyti eða stjórnarskrárvarinn eignarrétt umbj. okkar.  

Umbj. okkar gerir sérstaka athugasemd við þá nálgun FA að líta beinlínis svo á að heimilt sé að stunda laxeldið sem um ræðir í Seyðisfirði með vísan til auglýsingar nr. 460/2004, sbr. bls. 26 í frummatsskýrslu. Hið rétta er að það eina sem auglýsingin kveður á um er að það sé ekki beinlínis bannað. 

Auk þeirra athugasemda sem að framan greinir er á það bent að þótt áhrif á landslag og ásýnd séu afturkræf í þeim skilningi að kvíarnar megi fjarlægja, þá stinga þær mjög í stúf í firðinum og verða áberandi ásýndum allt frá því að komið verður fyrir og þar til þær verða fjarlægðar, komi til þess. Um er að ræða 24 sjókvíar sem eru auk þess í stórum rammafestingum. Bent er á að sæbratt er við Seyðisfjörð og því verða sjókvíarnar mjög áberandi og ekki aðeins þegar komið er vel upp í hlíðar eins og FA lætur að liggja í frummatsskýrslu. Áhrif á landslag eru því mjög neikvæð. 

Í framangreindu sambandi stoðar FA ekki villandi framsetning í frummatsskýrslu að því er varðar staðhætti og umfang sjókvíaeldisins sem hlutfall af Seyðisfirði. Sá kafli sem sjókvíaeldinu er ætlað að vera á er til muna styttri en 17,5 km. Þá er fjörðurinn miklu mjórri en 1,7 km þar sem kvíaeldið er einkum fyrirhugað og munar þar miklu. Tilvísanir í frummatsskýrslu til þess að kvíaeldið þeki tæp 7% af firðinum eru því í besta falli villandi m.t.t. þeirra áhrifa sem eldið hefur á ásýnd fjarðarins, en eldið mun óhjákvæmilega hafa veruleg áhrif á ásýnd nánasta umhverfis umbj. okkar.  

Ítrekað er að áhrif sjókvíaeldisins á lífríki eru neikvæð og raunar svo neikvæð að hvers kyns líf undir kvíunum drepst eða víkur og verður ekki endurheimt nema þegar sjókvíaeldi er hætt eða stöðvað í einhvern tíma, en óljóst er hversu langan tíma tekur að endurheimta lífríkið. Áhrifa þessa mun að verulegu leyti gæta innan netlaga umbj. okkar og þarf ekki að efast um áhrif þess á nytjar.  

Hvernig svo sem á málið er litið mun hið umfangsmikla sjókvíaeldi því hafa umtalsverð og neikvæð áhrif í umhverfislegu tilliti. Umbj. okkar vekur athygli á því að þessi neikvæðu áhrif eru til þess fallin að spilla góðri ímynd og möguleikum til þess að hafa tekjur af ferðaþjónustu og atvinnu sem tengist því. Í því sambandi er bent á, að ólíku er saman að jafna, stöðunni í dag, þar sem ekkert fiskeldi er stundað í Seyðisfirði og hið gríðarlega og umfangsmikla sjókvíaeldi sem fyrirhugað er og frummatsskýrsla tekur til.

Umbj.minn getur að síðustu ekki látið hjá líða að benda á að samkvæmt yfirlýsingum FA lítur félagið svo á að ákvæði laga um skipulag haf- og strandsvæða nr. 88/2018 gildi ekki um fyrirhuguð áform félagsins. Virðist félagið telja að af því leiði að engu skipulagsvaldi sé fyrir að fara á svæðinu þrátt fyrir að allt hið fyrirhugaða sjókvíaeldi falli sannarlega innan ytri marka Seyðisfjarðarhafnar og sé upp við siglingaleiðir og Farice strenginn.  

Með vísan til þess sem að framan greinir ítrekar umbj. okkar andmæli sín við fyrirliggjandi frummatsskýrslu og að fyrirhuguðum framkvæmdum FA er harðlega mótmælt. Áskilinn er réttur til að koma á framfæri frekari mótmælum, gerist þess þörf.


Kópavogi, 22. desember 2020


Previous
Previous

Mótmæli Einstaklings

Next
Next

Skipulagsþáttur