Mótmæli Einstaklings

Harbour-view.jpg

Athugasemdir / mótmæli við frummatsskýrslu vegna 10.000 tonna framleiðslu á laxi í Seyðisfirði, dags. 2. nóvember 2020.

Tinna Guðmundsdóttir

Ég hef verið búsett á Seyðisfirði undanfarin ár en er tímabundið í Reykjavík í námi. Ég á ennþá fasteign á Seyðisfirði og hef hug á að flytja þangað að aftur. 

Með þessu bréfi kem ég á framfæri mótmælum við fyrirhuguðu 10.000 tonna eldi á laxi í Seyðisfirði, sbr. frummatsskýrslu Fiskeldis Austfjarða hf., dags. 2. nóvember 2020. Vísað er til neðangreinda röksemda í þessu sambandi:

Áhersla er lögð á að þótt áhrif á landslag og ásýnd séu afturkræf í þeim skilningi að kvíarnar megi fjarlægja, þá stinga þær mjög í stúf í firðinum og verða afar áberandi allt frá því að þeim verður komið fyrir og þar til þær verða fjarlægðar, ef sá dagur kemur. Um er að ræða 24 sjókvíar sem eru auk þess í stórum rammafestingum. Bent er á að tiltölulega bratt er í sjó fram í Seyðisfirði og því verða sjókvíarnar mjög áberandi og ekki aðeins þegar komið er vel upp í hlíðar eins og látið er að liggja í frummatsskýrslu. Að mínu mati eru áhrif á landslag því ekki aðeins talsvert neikvæð heldur mjög neikvæð. 

Ég er ósammála því að óveruleg sjónmengun hljótist af uppsetningu eldiskvíanna og starfrækslu hins umfangsmikla fyrirhugaða laxeldis. Bent er á villandi framsetningu í frummatsskýrslu að því er varðar staðhætti og umfang þess flatar fjarðarins sem sjókvíaeldið mun þekja. Í því sambandi er bent á að sá kafli sem sjókvíaeldi er ætlað að vera á er til muna styttri en 17,5 km. Þá er fjörðurinn miklu mjórri en 1,7 km þar sem kvíaeldið er einkum fyrirhugað og munar þar miklu. Tilvísanir í frummatsskýrslu til þess að kvíaeldið þeki tæp 7% af firðinum eru því í besta falli villandi m.t.t. þeirra áhrifa sem eldið hefur á ásýnd fjarðarins. Í því sambandi er bent á sá hluti fjarðarins sem mestu máli skiptir er sá sem næstur er botni hans, höfninni og kaupstaðnum, þar sem flestir búa og gestir koma. 

Bent er á að áhrif sjókvíaeldisins á lífríkið eru neikvæð og raunar svo neikvæð að hvers kyns líf undir kvíunum drepst eða víkur og verður ekki endurheimt nema þegar sjókvíaeldi er hætt eða stöðvað í einhvern tíma, en óljóst er hversu langan tíma tekur að endurheimta lífríkið. Þá er ljóst að eldið mun hafa neikvæð áhrif á villta laxastofna og hugsanlega leiða til þess að síld, sem þekkt er að gengið hefur inn í fjörðinn, getur átt örðugra um vik, en ekki liggur fyrir hvort súrefnisþurrð getur hlotist af hinu fyrirhugaða eldi. Fyrirsjáanlegt er síðan tjón vegna marglyttumergðar eða blóma sem þrífst í kringum jafn umfangsmikið eldi og fyrirhugað er. 

Hvernig svo sem á málið er litið mun hið umfangsmikla sjókvíaeldi hafa umtalsverð og neikvæð áhrif í umhverfislegu tilliti.

Fyrir liggur að ef af sjókvíaeldinu verður munu seiði verða flutt með brunnskipi frá Þorlákshöfn og þeim dælt í eldiskvíar í Seyðisfirði. Þegar til slátrunar kemur verður fiski dælt aftur í brunnskip og að líkindum fluttur til Djúpavogs til slátrunar og vinnslu. Af þessu leiðir að þrátt fyrir mikið lýti í umhverfi og mengun, sem nánasta umhverfi íbúa Seyðisfjarðar verður fyrir, munu afar fá störf skapast. Hagur sveitarfélagsins og íbúa varður þannig afar takmarkaður ef nokkur af hinu fyrirhugaða eldi.  

Tengt framangreindu er hins vegar ástæða til að vekja athygli á því að íbúar Seyðisfjarðar byggja lífsviðurværi sitt m.a. af þjónustu við ferðamenn og skiptir þar hreinleiki og óspillt náttúra máli. Enginn vafi leikur á að sjókvíaeldið gengur í berhögg við verðmæta ímynd svæðisins. Í því sambandi er bent á, að ólíku er saman að jafna, stöðunni í dag, þar sem ekkert fiskeldi er stundað í Seyðisfirði og hið gríðarlega og umfangsmikla sjókvíaeldi sem fyrirhugað er og frummatsskýrsla tekur til. Ég tel líka ástæðu til að vekja athygli á því, að í ljósi þess sem að framan greinir standa líkur til þess að fyrirhugað sjókvíaeldi muni frekar verka neikvætt en jákvætt á möguleg áform fólks varðandi búsetu á svæðinu. 

Þá verður ekki hjá því komist, að benda á að samkvæmt yfirlýsingum Fiskeldis Austfjarða hf. gilda ákvæði laga um skipulag haf- og strandsvæða nr. 88/2018 ekki um fyrirhuguð áform félagsins. Virðist félagið telja að af því leiði að Seyðisfjarðarhöfn eða sveitarfélagið Múlaþing hafi ekkert um áform félagsins að segja. Slík afstaða kemur á óvart í ljósi þess að allt hið fyrirhugaða sjókvíaeldi fellur innan ytri marka Seyðisfjarðarhafnar. 

Þá er rétt að lýsa áhyggjum af fyrirhuguðu sjókvíaeldi í ljósi siglingaleiða og Farice strengsins, en ljóst er að áform Fiskeldis Austfjarða hf. um uppsetningu stórra kvía leiða til mannvirkja sem tiltölulega nærri liggja hvoru tveggja. 

Previous
Previous

Almenn athugasemd við tillögu MAST

Next
Next

Landeigendur