Almenn athugasemd við tillögu MAST

Ég undirrituð/aður mótmæli tillögu MAST að rekstrarleyfi FE-1135a og FE-1135b fyrir 10.000 tonna eldi í Seyðisfirði til Kaldvíkur.

Með því að heimila sjókvíaeldi í firðinum er íbúalýðræði hafnað.
Meirihluti Seyðfirðinga er á móti sjókvíaeldi í Seyðisfirði eins og skoðanakönnun Gallup frá 2023 sýnir. Samkvæmt skoðanakönnun Gallup frá nóvember 2024 er meirihluti landsmanna sömuleiðis neikvæður gagnvart áformunum eða 61% á meðan 16% er jákvæður.


Stofnar laxfiska eru settir í hættu.
Sjókvíaeldið mun hafa mikil áhrif á stofna laxfiska í firðinum og er vísað til nýlegrar rannsóknar Náttúrustofu Vestfjarða, sem leitt hefur í ljós sterka fylgni milli lúsaálags á villtum fiski og gnægðar fullorðinnar kvenkyns laxalúsar í nærliggjandi eldiskvíum.

Rétt burðarþolsmat liggur ekki fyrir
Burðarþolsmat Hafrannsóknarstofnun fer ekki að fiskeldislögum 71/2008. Hafró tók ekki tillit til annarrar starfsemi í firðinum þrátt fyrir að stofnunin hafi gefið út að króka- og línuveiðar yrðu stundaðar á fiskeldissvæðunum. Hafró valdi ekki og kynnti eldissvæðin eins og stofnunni ber að gera, Kaldvík valdi svæðin.

Áhættumat erfðablöndunar úrelt

Hafró hefur sagt opinberlega að áhættumat erfðablöndunar sé á núllpunkti eftir slysasleppinguna í Patreksfirði í ágúst 2023. Gert er ráð fyrir að nýtt mat verði tilbúið í mars 2025. Gerð er athugasemd við að MAST vitni í úrelt áhættumat erfðablöndunar í stað þess að bíða eftir nýju mati. Seyðisfjörður er skammt frá mörgum laxveiðiám og hættan fyrir villtan lax virðist vera meiri en Hafró taldi upprunalega. Því er ekki afsakanlegt að gefa út tillögu að rekstrarleyfi á þessum tímapunkti.

Tillagan byggir á einhliða siglingaáhættumati Kaldvíkur.
Skemmtiferðaskip hafa oft þurft að leita vars í víkum Seyðisfjarðar. Það er mat reynds skipstjóra á Seyðisfirði komi sjókvíar í víkurnar breytist Seyðisfjörður úr því að vera örugg siglingaleið í varasama.

Þá eru fyrirhuguð eldissvæði og eldisstöð í Sörlastaðavík inni í siglingaleið-hvítum ljósgeira Brimnesvita. Ekkert liggur fyrir um varúðarsvæði fyrir skip í neyð. Hafró hefur staðfest að eldissvæðið í Sörlastaðavík uppfylli ekki ákvæði um 5 km fjarlægð frá ósum Fjarðarár. MAST gefur samt út tillögu að rekstrarleyfi.

Öryggi Farice sæstrengsins er stefnt í voða.
Ég gagnrýni harðlega að MAST hafi ekki farið að beiðni Farice ehf. um að afgreiða ekki umsókn um rekstrarleyfi í Seyðisfirði fyrr en breytingar á fjarskiptalögum hafa tekið gildi. Kaldvík hefur ekki upplýst Farice ehf. um akkerisfestingar sjókvíaeldisstöðva, og umferð þjónustuskipa og annarra farartækja. Farice-1 strengurinn varðar þjóðaröryggi Íslands og Færeyja.

Ófullkomið og ólögmætt ofanflóðamat Kaldvíkur virðist tekið gott og gilt.
Ofanflóðahætta í Seyðisfirði er mikil. Staðbundið ofanflóðamat liggur ekki fyrir á svæðum SN1 í Sörlastaðavík og SN2 í Selstaðavík. Ekkert er sagt um ofanflóðahættu, sem getur orsakað stóra slysasleppingu og umhverfisslys, í tillögu að rekstrarleyfi. Ófullkomið og ólögmætt ofanflóðamat gert fyrir hagsmunaaðilann Kaldvík er tekið sem gilt í fylgiskjölum.

Ekki tekið tillit til annarrar náttúruvár

Önnur náttúruvá í Seyðisfirði, sem ekki er minnst á í tillögu að rekstrarleyfi, er aurskriður, neðansjávarskriður, hafís og lagnaðarís. Einnig þörungablómi og marglyttur, sem hafa áður gert útaf við sjókvíaeldi í Seyðisfirði og víðar. Það er algerlega ótækt að náttúruöflin séu ekki virt.

  

Samantekt

●      Umsókn Kaldvíkur hf. er óframkvæmanleg vegna aðstæðna í Seyðisfirði. Ofanflóðahætta, helgunarsvæði Farice-1, hvítur ljósgeiri Brimnesvita og fjarlægð frá ósum Fjarðarár þrengja þannig að eldissvæðum að sjókvíaeldi kemst ekki fyrir í firðinum.

●      Ekki er hægt að gefa út rekstrarleyfi í Seyðisfirði, þegar hagsmunaaðilinn Kaldvík hefur fengið að stýra stórum hluta af mati fjarðarins varðandi ofanflóð og siglingaöryggi. Auk þess hefur fyrirtækið vanrækt upplýsingaskyldu til Farice ehf. vegna öryggis fjarskiptastrengsins Farice-1 sem varðar þjóðaröryggi tveggja þjóða. 

●      Að lokum er mikilvægt að taka fram að umboðsmaður Alþingis er með til rannsóknar mögulegt vanhæfi lykilstarfsmanns í skipulagsvinnu vegna umrædds sjókvíaeldis, sem og rannsókn á strandsvæðisskipulaginu almennt. Slíkt eitt og sér ætti að leiða til þess að ekki sé veitt leyfi fyrr en að rannsókn lokinni, til þess að koma í veg fyrir óafturkræft tjón á náttúru og auðlindum fjarðarins, sem og mögulega bótaskyldu ríkisins.

Með vísan til ofangreindra atriða krefst ég þess að tillaga að rekstrarleyfi Kaldvíkur í Seyðisfirði verði dregin til baka og umsókn um rekstrarleyfi alfarið hafnað.

Virðingarfyllst,

[Fullt nafn]

[Kennitala]

[Dagsetning]

Next
Next

Mótmæli Einstaklings